Spennandi ferðir fyrir Íslendinga

Matar og vínmenning Katalóníu

Með Art Travel haustið 2018
Hvernig væri að skella sér með og upplifa matar og vínmenningu Katalóníu í haust?
Boðið verður upp á 5 daga ferðir sem henta öllum sælkerum sem vilja njóta sólar og sumars, fallegs og framandi umhverfis, matar, víns og gleðistunda í góðum hópi. Tilvalið fyrir t.d. matarklúbba, vínklúbba, saumaklúbba, vinahópa og bara fyrir allt opið og lífsglatt fólk.
Hópurinn mun dvelja á Masia Olivera, sögufrægu sveitasetri í miðju vínræktarhéraði, Subirats Penedes. Við förum um sveitir, neytum góðs matar, smökkum CAVA og önnur vín og fáum að kynnast menningu svæðisins í gegnum heimamenn. Síðan er tilvalið að njóta þess að slaka á við sundlaugina og rölta um í þessari dásamlegu sveit þar sem vínekrurnar teygja sig svo langt sem augað eygir. Við heimsækjum vínbúgarðinn Llopart sem hefur verið rekinn af sömu fjölskyldu í margar aldir og ræktar lífrænt CAVA freyðivín. Við munum einnig heimsækja Can Bas vínbúgarðinn þar sem við kynnum okkur þeirra framleiðslu og smökkum á hvítvíni og rauðvíni. Heimsækjum Castillo de Subirats, kastala frá árinu 917, Torre Ramona lítið þorp frá byrjun 17. aldar, þar mun listakonan Cathrine Bergsrud bjóða okkur velkomin með CAVA og tapas á hennar heimili og vinnustofu. Síðdegis einn daginn heimsækjum við bæinn Vilafranca frá miðri 12. öld, hér verður hægt að versla, skoða sig um og borða saman á einum besta veitingastað bæjarins. Síðasta deginum verjum við í Barcelona, borðum saman hádegiverð á eftirlætis veitingastað Salvadors Dali við Plaza Real torgið og eigum að öðru leyti frjálsan tíma.

Ítarlegar uppl. ásamt verðum hér

Sól, gleði og skapandi skrif í fjallaþorpinu Vilaflor á Tenerife 11. - 18. september, 2018

Ferðinni er heitið til Tenerife og munum við dvelja í fjallaþorpinu Vilaflor þar sem sköpunin og gleðin verða við völd. Vilaflor liggur við fótinn á þjóðgarðinum El Teide og er það þorp á Spáni sem stendur hæst yfir hafi. Útsýnið yfir nærliggjandi þorp og sveitir og til hafs er bara engu líkt. Við gistum á yndislegu fjölskylduhóteli Alta Montana, í friðsælu og fallegu umhverfi sem mun án efa gefa innblástur til skapandi skrifa.
Björg Árnadóttir frá Stílvopninu mun kenna fólki skapandi skrif en hún hefur áratuga reynslu af ritlistarkennslu. Við munum einnig fara í skoðunarferðir með okkar lókal leiðsögumanni José Antonio Ortiz en einnig verður hægt að fara í göngur inn í þjóðgarðinn, slaka á við sundlaugina og skella sér á ströndina ef vill.
Ferðin er fyrst og fremst ætluð fólki sem vill skrifa, jafnt þeim sem fást við skriftir en vantar innblástur og þeim sem langar til að hefjast handa við skriftir en vita ekki hvernig þeir eiga að taka fyrsta skrefið. Auk þeirra eru vinir og makar velkomnir með og geta þá gert það sem þá langar á meðan á námskeiðinu stendur en jafnframt tekið þátt í skoðunarferðum, matmálstímum og öðrum félagslegum athöfnum hópsins.

Ítarlegar uppl. ásamt verðum hér